Monday, June 19, 2006

Kerling..


er hæsta fjall við byggð á Norðurlandi, talið vera um 1540 m y.s. Uppi á því er talsverður fjallsflötur, sem hallar dálítið suður, og er fjallið því hæst á norðurbrúninni. Vanalega þekur jökulfönn mestallan toppflötinn, en gróður er aðeins við brúnirnar, mosi og fáeinir steinbrjótar. Allstór landmælingavarða er uppi á fjallinu við NA-brúnina og í henni askja með nöfnum þeirra sem klifið hafa fjallið. Það telst nú ekki til afreka, en þægilegast er að ganga á fjallið frá Glerárdal, upp NV-öxlina.
Þrjár miklar jökulskálar eru utan í fjallinu, sú stærsta að norðanverðu (NNA) og er það raunar botninn á dalskoru sem Lambárdalur nefnist, en í honum liggur Lambárjökull upp að hengiflugunum norðan í fjallinu, sem munu vera um 300 m hár og nær alveg þverhníptur klettavegggur. Vestan í fjallinu er önnur mikil jökulskál, sem ekki er nafngreind, og vísar niður á varpið milli Glerárdals og Finnastaðadals og loks er jökulskálin Lambárbotnar suðaustan í fjallinu og vísar niður á Finnastaðadal. Er þar góð uppganga á vetrum, en stundum miklar sprungur í jökulskálinni á sumrin, sem þarf að krækja fyrir. Austan og sunnan í Kerlingu eru einnig grunnar skálar, en jökullausar. Suðaustur úr Kerlingarfjalli gengur fjallsrani, norðan við Lambárbotna, og kallast Öxlin (Kerlingaröxl). Að austan endar Öxlin í burstlega fjallstindi séð frá Grund (en þaðan ber lítið á hæsta fjallinu). Er þessi tindur líklega Kerlingin, sem gefið hefur fjallinu nafn, en í seinni tíð hafa gamansamir menn nefnt hana Jómfrúna. Á Öxlinni eru líka fleiri smátindar, sumir með ekta kerlingar"-lagi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home